Verkefnin

Hrafnshóll þróar hagkvæmar húsnæðislausnir og sérhæfir sig í að byggja húsnæði á landsbyggðinni. Við byggjum hratt og örugglega !

Akranes | Asparskógar 6

Á Akranesi byggjum við 14 íbúða lyftuhús þar sem verða 2ja og 3ja herbergja íbúðir. Framkvæmdir hófust í ársbyrjun 2022 og íbúðirnar voru tilbúnar til afhendingar í ársbyrjun 2023. Íbúðunum er skilað fullbúnum með öllum gólfefnum. Eldhús eru fullbúin með innbyggðum kæli- og frystiskáp og uppþvottavél. Böðin eru flísalögð. Gólfhiti er í húsinu. Hjóla- og vagnageymsla er á jarðhæð hússins. Eins og aðrar byggingar okkar er húsið timburhús og verður sérstaklega vandað til þess hvað varðar hljóðvist og brunavarnir. Utanhússklæðning er timbur. Gengið verður frá rafmagni og bílastæðum þannig að auðvelt verði að setja upp hleðslubúnað fyrir rafbíla. Nánari upplýsingar um einstakar íbúðir í húsinu er að finna á fasteignvefum, og einnig má senda tölvupóst á hrafnsholl@hrafnsholl.is eða hringja í síma 537-9500.

Ísafjörður | Tungubraut 2-8

Á Ísafirði byggir Hrafnshóll fjögurra íbúða raðhús við Tungubraut. Þetta er fyrri hluti verkefnisins, en áætlað er að byggja aðrar fjórar íbúðir síðar við Tungubraut 10-16. Framkvæmdir hófust síðla hausts 2020 og áætlað er að íbúðir verði tilbúnar til afhendingar í maí 2021. Eins og annars staðar er íbúðum skilað fullbúnum.

Vopnafjörður | Skálanesgata 8b-i

Vopnafjarðarhreppur samdi við Hrafnshól sumarið 2020 um byggingu sex íbúða fyrir sveitarfélagið. Leigufélagið Nýjatún byggði að auki tvær íbúðir, þannig að verkefnið varð að tveimur fjögurra íbúða raðhúsum. Framkvæmdir hófust í júlí 2020 og íbúðirnar voru afhentar 15. desember 2020. Lóðarfrágangi lýkur vorið 2021 þegar tún hafa grænkað.

Súðavík | Grundarstræti 9-17

Súðavíkurhreppur samdi við Hrafnshól haustið 2019 um kaup á þremur íbúðum af fimm sem byggðar verða við Grundarstræti í Súðavík. Nýjatún-leigufélag kaupir tvær íbúðir. Framkvæmdir hófust í desember 2019 en hlé varð á framkvæmdum þar til vorið 2020. Íbúðirnar voru svo afhentar í september 2020.

Búðardalur | Bakkahvammur 8a-e

Bakkahvammur hses (húsnæðis-sjálfseignar-stofnun) samdi við Hrafnshól um byggingu þriggja íbúða í fimm íbúða raðhúsi sem rís nú við Bakkahvamm í Búðardal. Nýjatún-leigufélag kaupir hinar tvær íbúðirnar.
Afhending íbúðanna var vorið 2020.

Blönduós | Smárabraut 19-27

Á Blönduósi byggir Hrafnshóll fimm íbúða raðhús. Kaupandinn er Nýjatún-leigufélag, sem er dótturfélag Hrafnshóls. Sveitarfélagið styður við verkefnið með samningi um skilyrta leigutryggingu á þremur íbúðum. Íbúðirnar voru fullbúnar vorið 2020 – og voru þá liðnir um fjórir mánuðir frá því framkvæmdir hófust.

Reykhólar | Hólatröð 5-9

Vorið 2019 byggðum við þriggja íbúða raðhús fyrir Reykhólahrepp, sem réðst í verkefnið til að mæta íbúðaskorti í sveitarfélaginu. Frá fyrstu skóflustungu og að afhendingu íbúðanna liðu rétt um 4 mánuðir.
Íbúðirnar eru byggðar inn í stofnframlagakerfi HMS.

Vík í Mýrdal | Strandvegur 2-30

Við Strandveg í Vík höfum við byggt 15 íbúðir í fimm raðhúsum. Fyrsta raðhúsið var byggt haustið 2017 fyrir Mýrdalshrepp sem hafði frumkvæði að því að koma verkefninu af stað og keypti þrjár íbúðir. Tólf íbúðir fóru í sölu á almennan markað og hafði tilkoma þeirra mikil áhrif á að koma hreyfingu á fasteignamarkaðinn í Vík. 

Hrífunes Nature Park

Árið 2017 byggði Hrafnshóll fjögur glæsileg hús í Hrífunesi á Suðurlandi. Þessi hús eru nú í útleigu og rekin undir merkjum Hrifunes Nature Park. Við erum mjög stolt af útkomunni og gestir í húsunum dásama veruna þar.

Þessi vefsíða notar vefkökur (cookies) til að bæta upplifun þína. Með því að halda áfram samþykkir þú stefnu okkar um vefkökur